Tæknifyrirtækið Ró-Box var á dögunum valið fyrirtæki ársins í samkeppni Ungra frumkvöðla á Íslandi, en fyrirtækið hannar og selur sett til þess að setja saman og forrita róbota. Mun það því keppa fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni Ungra frumkvöðla í Lille í Frakklandi í byrjun júlí.

Fyrirtækið varð til þegar fimm nemendur Tækniskólans tóku sig saman í frumkvöðlaáfanga í náminu og útfærðu hugmyndina, en er skráð einkahlutafélag í dag, og stefnir á áframhaldandi starfsemi og uppbyggingu.

Ætluðu að búa til harðfisksnakk
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, markaðsstjóri Ró-Box, segir þau hafa verið hársbreidd frá því að ákveða að framleiða harðfisksnakk, en á elleftu stundu hafi þau ákveðið að beina sjónum sínum frekar að einhverju sem þau hefðu ástríðu fyrir. „Sú hugmynd hefði örugglega ekki unnið. Við uppgötvuðum fljótt að við höfðum takmarkaðan áhuga á harðfiski og ákváðum því að gera frekar eitthvað sem við hefðum bæði reynslu af og áhuga á.“

Teymið hafði áður unnið saman á sama sviði þegar þau stofnuðu Vélmennasmiðju Tækniskólans síðasta sumar; námskeið í því að setja saman og forrita vélmenni, og því voru heimatökin hæg. „Við ákváðum að vinna frekar með styrkleika okkar og sérstöðu.“

Auk þekkingar og áhuga höfðu þau mjög góða aðstöðu til verksins innan skólans. „Tækniskólinn er með mjög góðan aðgang að búnaði eins og þrívíddarprenturum og laser-skerurum: vélum sem eru hugsaðar til að framkvæma svona hugmyndir.“

Engu sóað
Teymið hófst því handa, en eitt af því nýstárlega við útfærslu þeirra er að umbúðirnar eru hluti af vörunni sjálfri. Hver einasti hluti pakkans þjónar tilgangi við samsetningu róbotans sjálfs og því fer ekkert í ruslið. „Við byrjuðum á því að hanna boxið utan um þetta.

Við vildum vera með eitthvað aðeins öðruvísi en öll vélmennasettin á netinu. Platan af boxinu breytist í grunnplötuna á róbotanum, þannig að þegar þú snýrð boxinu við og tekur botninn undan ertu kominn með grunnplötuna að róbotanum. Svo ertu með flokkunarbox til að flokka skrúfur og svona, svo þú ert ekki að sóa neinu, og ert auk þess vel settur fyrir næsta verkefni.“

Markmið fyrirtækisins er að auka tækniþekkingu og -læsi almennings, og þá sérstaklega ungs fólks, sem margir telja menntakerfið ekki undirbúa nægilega vel fyrir vinnumarkað framtíðarinnar. „Við sjáum það mikið í fréttum að störf framtíðarinnar muni í auknum mæli tengjast forritun og annarri tækni, en það er ekki mikið verið að undirbúa krakka í dag fyrir þann veruleika.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .