„Er ekki sérkennilegt að biðja ríkisvaldið í sífellu um fjárfestingar og framkvæmdir fremur en að beina sjónum að fjárfestingum á almennum markaði?“ spyr Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag og gagnrýnir málflutning „verkalýðssinnaðra sjálfstæðismanna“.

„ Í nafni atvinnurekenda krefjast þeir fjárfestinga og framkvæmda fyrir almannafé sem er mjög af skornum skammti og yrði enn minna ef heitstrengingar þeirra um að afnema veiðigjald og lækka skatta eignafólks og fyrirtækja yrðu að veruleika,“ skrifar forsætisráðherra.

Hún fer síðan yfir þversagnir í málflutningi andstæðinga ríkisstjórnarinnar og árangur ríkisstjórnarinnar. „Fá lönd innan OECD búa nú við minna atvinnuleysi en Ísland og ekkert land hefur náð að minnka atvinnuleysið eins hratt og mikið á liðnum árum og Ísland,“ skrifar Jóhanna.