Haustið 2014 hleypti UN Women af stokkunum kynningarátaki til þess að hvetja karlmenn um allan heim til þess að taka þátt í baráttunni fyrir jafnrétti - svonefnt HeforShe.

Stef kynningarátaksins féll vel að hugmyndum sem þá voru uppi um að koma af stað samtali meðal karla um kynjajafnrétti og hvernig virkja mætti karla í jafnréttisbaráttunni.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, verður einn 10 þjóðarleiðtoga í forsvari fyrir HeforShe, líkt og tveir forverar hans, en öll ríkisstjórnin mun taka þátt í þessu átaki og á morgun 17. febrúar verður málið á dagskrá ríkisstjórnar.

Þann sama dag er viðburður vegna átaks UN Women á Íslandi gegn kynbundnu ofbeldi: „Milljarður rís“ haldinn í Hörpu. Í ár munu þátttakendur í viðburðinum heiðra minningu Birnu Brjánsdóttur.