Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands, telur hættu á því að þriggja flokka ríkisstjórnarsamstarfið þar í landi klofni í kjölfar formannsskipta hjá Finnaflokknum.

Harðlínumaðurinn Jussi Halla-aho var kjörinn formaður Finnaflokksins, sem áður hét Sannir Finnar, í gær. Halla-aho vill herða innflytjendalöggjöf og draga Finnland út úr Evrópusambandinu.

„Auðvitað er hætta á því. Stjórnvöld eru í erfiðri stöðu,“ sagði forsætisráðherrann Sipila, sem er formaður Miðjuflokksins, við dagblaðið Helsingin Sanomat.

Sinila mun funda með Halla-aho á mánudag. Miðjuflokkurinn, Finnaflokkurinn og Sameiningarflokkurinn hafa verið saman í ríkisstjórn í rúm tvö ár.