Manuel Valls, forsætisráðherra Frakka, gekk á fund Francois Hollande, forseta Frakka, í morgun og tilkynnti honum um afsögn ríkisstjórnarinnar. Afsögnin kemur í kjölfar harðar gagnrýni ráðherra efnahagsmála, Arnoud Montebourg, á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar um helgina.

Telur hann að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafi verið röng, þar sem megináhersla hefði verið lögð á að draga úr fjárlagahalla landsins, en ríkisstjórninni hefði borið að leggja áherslu á að koma landinu út úr kreppunni með öðrum leiðum.

Hollande hefur samþykkt afsögn ríkisstjórnarinnar, en hann fyrirskipaði Valls að mynda nýja ríkisstjórn hið fyrsta.

Ríkisstjórn Valls hefur verið við störf síðan í mars síðastliðnum, en fastlega er búist við að ný ríkisstjórn verði mynduð í vikunni.