Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, fundar með ráðamönnum Evrópusambandsins í Brussel í Belgíu í dag um neyðarlánapakkann sem samið var um á dögunum. Lánið hljóðar upp á 130 milljarða evra og á að nýtast stjórnvöldum til að standa við skuldbindingar sínar eftir um þrjár viku vikur. Lán gríska ríkisins upp á 14,5 milljarða evra er á gjalddaga 20. mars næstkomandi.

Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og hópur kröfuhafa veita ríkisstjórn Lucasa Papademos ekki hjálparhönd þegjandi og hljóðalaust en stjórnin þarf að skera ríkisútgjöld niður um 3,2 milljarða evra til viðbótar við það sem samið var um. Lífeyrissjóðsgreiðslur eru á ný komnar undir niðurskurðarhnífinn auk þess sem lágmarkslaun verða lækkuð. Á móti afskrifa lánardrottnar gríska ríkisins kröfur sínar um 53,5%.

Gangi allt eftir lækka skuldir gríska ríkisins um 107 milljarða evra, að sögn breska útvarpsins, BBC.

Ríkisstjórn Grikklands kýs um niðurskurðaráætlunina í dag. Landsmenn hafa síður en svo tekið vel í niðurskurðaráætlanir en mótmæli hafa staðið yfir í Aþenu nær látlaust í nokkrar vikur.