Kári Stefánsson skrifar opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra í Fréttablaðinu í dag þar sem han sakar Sigmund um að sitja beggja vegna borðsins og annars vegar sem forsætisráðherra og hins vegar sem stjórnarandstöðuþingmaður.

Meginuppistaðan í bréfi Kára fjallar um tillaga Sigmundar um að flytja fyrirhugaða spítalabyggingu frá Hringbraut yfir að Vífilstöðum. Kári gagnrýnir Sigmund fyrir að hafa lagt fram tillöguna án þess að ræða við heilbrigðismálaráðherra sem fer með þau mál er lúta að Landspítalanum eða fjármálaráðherra sem hafði yfirumsjón með smíð fjárlaga sem kveða á um fé til Hringbrautarlausnarinnar.

„Það er með öllu fordæmislaust að forsætisráðherra í samsteypustjórn gangi opinberlega gegn mikilvægum ákvörðunum fagráðherra úr samstarfsflokki hans í ríkisstjórn. Það má leiða að því rök að þar með sért þú genginn í lið með stjórnarandstöðunni og sitjir beggja vegna borðs, bæði sem forsætisráðherra og stjórnarandstöðuþingmaður.“

Forsætisráðherra verður að nota kærleika daglega í störfum sínum

Kári talar einnig um sögusagnir sem hann hefur heyrt af forsætisráðherranum.

„Mér skilst á þeim sem gerst þekkja til þín að þú talir sjaldan við nokkurn mann, ekki einu sinni þingmenn úr þínum eigin flokki og greinilega ekki heldur við samráðherra þína áður en þú veður inn í þeirra málaflokka skæddur á ýmsan máta. Sagan segir líka að þú sitjir löngum stundum einn í myrku herbergi í Alþingishúsinu. Það getur heldur ekki talist gott vegna þess að myrkrið er ekki bara fjarvera ljóss heldur líka eitthvað vont sem leggst á sálina og sviptir hana kærleika sem er eitt af þeim tækjum sem forsætisráðherra verður að nota í sínu daglega starfi.“

Kári segir að á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins hafi verið kvartað mikið yfir fjarveru forsætisráðherra í þingsal, að hann væri gjarnan í fríi og að enginn næði í hann.

„Nú þjáist nefnilega ekki bara stjórnarandstaðan og stjórnin heldur þjóðin öll af skorti á fjarveru þinni. Þú værir best geymdur annars staðar og við aðra iðju eins og til dæmis á Flórída að fá útrás fyrir áhuga þinn á skipulagsmálum með því að spila Matador við sjálfan þig. Þetta er ekki nema svona rétt mátulega fyndið en segir svolítið um það hvers konar augum samfélagið lítur þig þessa dagana.“

Gísli Marteinn er bara lítill strákur

Kári ræðir einnig um samskipti Sigmunds við fjölmiðla. Hann segir að Sigmundur hafi oft kvartað yfir því að fjölmiðlar séu ósanngjarnir við sig og spyrji hann vondra spurninga, en Kári segir þessa skoðun byggja á grundvallarmisskilningi. Það sé verið að veita honum tækifæri til að sýna þjóðinni að hann sé sterkur og fastur fyrir, auk þess að hann geti tjáð sig þannig að ekkert fari milli mála.

„Það kastaði þá fyrst tólfunum þegar þú brást við þeirri gagnrýni að þú hefðir hagað þér kjánalega í viðtali við Gísla Martein í sjónvarpsþætti með því að segja að hann hefði gert það líka. Gísli Marteinn er bara lítill strákur sem vinnur við sjónvarp en þú ert forsætisráðherra lýðveldisins?“