Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hyggst á næstunni leggja fram frumvarp til laga um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni. Drög að frumvarpinu voru kynnt í ríkisstjórn í morgun og verða svo kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna á næstunni.

Fyrrnefnt frumvarp er unnið á grundvelli ákvæðis í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að unnið verði að einföldun og aukinni skilvirkni regluverksins. Markmiðið verði að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði sé haldið niðri.

Samkvæmt heimildum VB.is hefur forsætisráðuneytið unnið að endurskoðun laga um opinberar eftirlitsreglur um nokkurra mánaða skeið. Ýmsir grunnþættir úr eldri lögunum eru í nýja frumvarpinu, en nýjum þáttum bætt við til að draga úr reglubyrði.

Samkvæmt heimildum VB.is verður sett á fót sérstakt sex manna regluráð sem mun ráðleggja stjórnvöldum og Alþingi. Það mun gefa umsagnir og leiðbeina um helstu lagabreytingar og nýja löggjöf og reglur. Fulltrúar forsætisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúar atvinnulífsins munu skipa þetta ráð.