Þetta kemur fram á vef Fálkaorðunefndar á heimasíðu forseta Íslands en DV greindi frá henni í morgun. Þá hlaut Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, stórriddarakross degi fyrr, þann 12. desember. Stórkross er æðsta stig fálkaorðu sem hægt er að veita þeim sem ekki eru þjóðhöfðingjar.

Ekki kemur fram hvers vegna forsætisráðherra eða forseti Alþingis hafi verið sæmdir orðunum. Á vefsíðunni er veiting orðunnar gjarnan rökstudd, þó að ýmis dæmi séu um að það sé ekki gert, einkum í tilfellum erlendra ríkisborgara.

Guðni Ágústsson formaður nefndarinnar

Formaður Fálkaorðunefndar er Guðni Ágústsson. Hann er fyrrum formaður Framsóknarflokksins. Aðrir í nefndinni eru Ellert B. Schram, fyrrv. alþingismaður og fyrrv. forseti ÍSÍ, Rakel Olsen, framkvæmdastjóri, Ólafur Egilsson, fyrrv. sendiherra, Þórunn Sigurðardóttir, leikstjóri og Örnólfur Thorsson, orðuritari.

Á vef forseta er að finna nánari skýringar á því hver orðustig hinnar íslensku fálkaorðu eru:

Fyrsta stig orðunnar er riddarakrossinn og flestir orðuþegar eru sæmdir honum. Annað stigið er stórriddarakross, síðan stórriddarakross með stjörnu og loks stórkross. Æðsta stig orðunnar er keðja ásamt stórkrossstjörnu en hana bera einungis þjóðhöfðingjar. Gefist tilefni til getur orðunefnd hækkað einstakling um orðustig.