Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur boðað að vegið verði upp á móti bankabjörgun í heimalandi hans með skattahækkunum og niðurskurði á ríkisútgjöldum. Stjórnvöld sóttu um lán hjá björgunarsjóði evruríkjanna á dögunum til að koma bönkunum á réttan kjöl. Ríkisstjórnin fékk í vikunni græna ljósið fyrir 30 milljarða evra lánafyrirgreiðslu.

Á meðal þeirra ráða sem gripið verður til er að hækka virðisaukaskatt úr 18% í 21%, lækka atvinnuleysisbætur og starfslokagreiðslur til einstakra ríkisstarfsmanna afnumdar. Gert er ráð fyrir því að með þessu móti spari ríkið 65 milljarða evra á næstu tveimur og hálfu ári.

Aðgerðirnar eru flestar hverjar þvert á kosningaloforð Rajoys sem settist í stól forsætisráðherra um síðustu jól. Á meðal helstu loforða hans var að lækka skatta. Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Rajoy, að aðstæður hafi breyst og þurfi hann að aðlaga sig að breyttu umhverfi.

Aðstæður eru með versta móti í spænsku efnahagslífi. Ríkið á í mesta basli með að fjármagna skuldir sínar og tiltrú fjárfesta á landinu lítið. Ríkið þarf að greiða 6,78% álag á ný lán og er það með því hæsta sem gerist. Til samanburðar er álagið einungis 1,32% í Þýskalandi. Þá hefur ríkisstjórn Rajoys reynt til þrautar að draga úr hallarekstri á sama tíma og fjórði hver landsmaður er án atvinnu.