Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, hefur lofað því að opinbera skattaskýrslur sínar og gefa upp hverjar eignir hans eru. Yfirlýsingin kemur í kjölfar frétta af meintum leynilegum peningagreiðslum til hans og annarra leiðtoga hins íhaldssama þjóðarflokks. Í frétt Wall Street Journal segir að þessir gagnsæistilburðir séu þó ekki líklegir til að róa þá óánægjuöldu sem merkja má meðal spænsks almennings.

Í gær höfðu hátt í 770.000 manns ritað nöfn sín á undirskriftasöfnun þar sem krafist er afsagnar Rajoy. Leiðtogi sósíalistaflokksins, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur einnig hvatt Rajoy til að segja af sér.

Á fimmtudaginn birtist frétt í dagblaðinu El País þar sem birtir voru útdrættir úr því sem fullyrt var að væru reikningar þjóðarflokksins. Þar mátti finna upplýsingar um greiðslur til flokksleiðtoga, þar á meðal Rajoy. Á féð að hafa komið í ómerktum umslögum frá leynilegum bankareikningi, sem fullur var af peningum frá verktakafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum sem sóst höfðu eftir viðskiptum við spænska ríkið. Rajoy hefur þvertekið fyrir að hafa tekið við greiðslum sem þessum.