Forsætisráðherra Spánar hefur lýst sig viljugan til að ræða við leiðtoga Katalóníu eftir sigur aðskilnaðarsinna í kosningum í héraðinu. Segir Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar að hann búist nú við því að nýtt tímabil viðræðna hefjist í kjölfar héraðskosninga í Katalóníu þar sem flokkur hans, þjóðarflokkur Spánar beið afhroð.

Rajoy boðaði sjálfur til kosninganna eftir að hafa í fyrsta sinn í sögu stjórnarskrár landsins sem tók við eftir einræðisstjórn Franco hershöfðingja nýtt heimild sem heimilaði stjórnvöldum í Madríd að svipta ákveðnum héruðum landsins sjálfsforræði sínu.

Hafði hann vonast eftir því að með því gæti hann dregið kraftinn úr sjálfstæðissinnum katalóníumanna en þó flokkur sambandssinna hafi orðið stærstur í kosningunum, héldu sjálfstæðissinnar meirihluta sínu í héraðsþinginu.

Sjálfstæðissinnar náðu meirihluta

Niðurstaða kosninganna varð sú að þrír sjálfstæðissinnaðir flokkar sem stóðu að baki ríkisstjórninni sem hafði verið vikið frá völdum, hlutu 70 af 135 sætum í héraðsþinginu þó þeir fengju einungis 47,7% atkvæða og töpuðu tveim þingsætum frá síðustu ríkisstjórn.

Borgaraflokkurinn, frjálslyndur sósíaldemókrataflokkur sem lýsir því yfir að hann sé kominn yfir þjóðarhugtakið hlaut flest atkvæði eða 25,37% og 37 þingmenn. Bætti flokkurinn við sig 12 atkvæðum frá fyrra þingi sem leyst var upp.

Flokkurinn Saman fyrir Cataloníu, sem leiddur var af leiðtoga héraðsins Carles Puigdemont, hlaut næstflest atkvæði, eða 21,6% og 34 þingmenn. Flokkurinn var stofnaður sérstaklega fyrir kosningarnar en er nýjasta byrtingarmynd þjóðernissinnaða og miðhægrisinnaði Lýðræðisflokksins sem lengst af hefur verið stærsti flokkurinn í héraðinu.

Kom það til eftir að tveir þjóðernissinnaðir vinstriflokkar sem höfðu verið í kosningabandalagi sjálfstæðissinna með hægriflokknum í síðustu kosningum neituðu að taka þátt í því nú. Næstur í röðinni kom annar þeirra, hinn sjálfstæðissinnaði flokkur Vinstrilýðveldisflokkurinn - já við Katalóníu með 21,39% atkvæða og 32 þingmenn og síðan  kom Sósíalistaflokkur Katalóníu með 13,88% atkvæða og 17 þingmenn.

Þar á eftir fékk Katalónía í sameiningu - við getum 7,45% og 8 þingmenn en hann er katalóníska útgáfan af rótæka vinstriflokknum Pódemos á Spáni, en síðan flokkurinn Almenni sameiningarlistinn sem er sjálfstæðissinnaður vinstri flokkur sem fékk 4,45% og 4 þingmenn. Síðastur kom svo Þjóðarflokkur Rajoy forsætisráðherra Spánar sem fékk 4,24% og 3 þingmenn

Harðræði beitt til að reyna að stöðva þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eru margir Katalóníubúar orðnir langþreyttir á menningarlegum og efnahagslegum áhrifum spænskra stjórnvalda í héraðinu, sem er hvort tveggja betur stæðara en önnur héröð landsins og greiðir því meira til alríkisins, sem og íbúarnir eiga sitt eigið tungumál, sem þó er talað víðar í austurhluta Spánar en einungis í Katalóníuhéraði.

Fór það loks svo að stjórnvöld í Katalóníu lýstu yfir sjálfstæði í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu , en stjórnvöld í Spáni beittu harðræði til að reyna að koma í veg fyrir kosninguna. Þurfti leiðtogi héraðsins, Carles Puigdemont sem sviptur hafði verið embætti að flýja land í kjölfarið, en margir aðrir forystumenn sjálfstæðissinna voru fangelsaðir.