*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 2. apríl 2015 17:28

Forsætisráðherra útilokar ekki að færa nýja Landspítalann

Sigmundur Davíð segir skiptar skoðanir hafi verið um hvort Hringbraut væri rétti staðurinn fyrir þjóðarsjúkrahús.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra útilokar ekki að færa nýja Landspítalann og segir á Facebook síðu sinni nú síðdegis að: „Ef til vill verður niðurstaðan sú að nýtt sjúkrahús rísi við Hringbraut en lausnamiðað fólk hlýtur að skoða þá möguleika sem eru fyrir hendi miðað við núverandi aðstæður til að meta hver sé skynsamlegasta, hagkvæmasta og fljótlegasta leiðin til að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús."

Eins og VB.is greindi frá varpaði Sigmundur fram þeirri hugmynd í kvöldfréttum í gær að skoða möguleikann á því að selja eignir Landspítalans við Hringbraut og byggja annars staðar. 

Sigmundur segir jafnframt á Facebook-síðu sinni nú um eftirmiðdaginn að skiptar skoðanir hafi verið meðal annars meðal heilbrigðisstarfsfólks um hvort Hringbraut væri rétti staðurinn fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.