Rishi Sunak þénaði tæplega 4,8 milljónir punda, rúmar 800 milljónir króna, á þremur árum. Hann greiddi 22 prósenta skatthlutfall samkvæmt greiningu breska dagblaðsins Telegraph.

Megnið af tekjum forsætisráðherrans var vegna söluhagnaðar, arðs og vaxta frá „einum fjárfestingarsjóði í Bandaríkjunum“, sem Sunak hefur enga aðkomu að (e. Blind trust) og er stýrt af alls ótengdum aðilum til að forðast hagsmunaárekstra.

Alls þénaði Sunak tæplega 4,4 milljónir punda í söluhagnað og arð á síðustu þremur skattaárum auk ráðherralauna sinna á sama tímabili upp á 410.951 pund og greiddi breskan skatt upp á 1 milljón punda, eða um 180 milljónir króna.

Downingstræti birti í dag yfirlit yfir skattskyldar tekjur, söluhagnað og greiddan skatt forsætisráðherrans, þar sem þessar upplýsingar koma fram.

Yfirlýsingin – sem var þrjár blaðsíður – sýnir að Sunak hafði tekjur upp á 4.352.767 pund af fjárfestingum í Bandaríkjunum á skattaárunum þremur frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2022.

Gríðarlega efnaður

Auður Sunak var metinn í haust á 730 milljónir punda. Það eru um 130 milljarðar króna. Tekjur Sunak af eignum sínum eru því ekki óeðlilegar og reyndar yrðu margir ósáttir við svo litla arðsemi.