Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir ekki útilokað að byggðakvóta verði úthlutað til fiskvinnslufyrirtækja en nú er honum úthlutað til fiskiskipa. Hann kvaðst einnig vilja tryggja það að meiri afli færi um fiskmarkaði og sjálfstæðar vinnslur hefðu þannig greiðari aðgang að hráefni. Þetta kemur fram í frétt á vef Fiskifrétta .

Í fréttinni segir: „Þetta kom fram á fundi sem Félag atvinnurekenda hélt í samstarfi við Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) með frambjóðendum flokka sem líklegir eru til að ná sæti á Alþingi.

Sigurður Ingi sagði að Framsóknarmenn hefðu skoðað þá leið að setja byggðakvótann á fiskvinnslur.

„Það er ekki útilokað að það sé hægt að fara þá leið,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði að ræða þyrfti hvernig ráðstöfun á þeim 5,3% af kvótanum, sem ríkið hefði yfir að ráða, tryggði að vinnsla væri áfram á tilteknum stöðum.

Sigurður Ingi sagði að taka ætti tilmælin til skoðunar, en þó með þeim fyrirvara, eins og Samkeppniseftirlitið gerði sjálft, að fiskveiðistjórnunarkerfið væri mjög gott og ekki væri ætlunin að breyta því.

Í svari við annarri spurningu á fundinum sagði Sigurður Ingi að hann hefði viljað skoða það að tryggja að meiri afli færi um fiskmarkaði og sjálfstæðar vinnslur hefðu þannig greiðari aðgang að hráefni. Hann sagði að sú þróun að minnkandi hlutfall afla færi á fiskmarkað væri alls ekki góð fyrir sjávarútveginn í heild.

Fyrirtækin í SFÚ væru mikilvægur þáttur í að gera íslenskan sjávarútveg samkeppnishæfan á alþjóðamarkaði. Hins vegar minnti hann á að Samkeppniseftirlitið segði að til þess að tryggja þá samkeppnishæfni yrðu að vera hér lóðrétt samþættar útgerðir, þar sem veiðar og vinnsla eru í sama fyrirtæki.“