Forsætisráðherrahjónin, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna S. Pálsdóttir, hafa birt eins konar spurt og svarað um Wintris-málið á bloggsíðu forsætisráðherra.

Þau segja meðal annars að Landsbankinn, sem var viðskiptabanki þeirra á þeim tíma hafi ráðlagt fyrirkomu lag sem hafi hentað til að hafa eignirnar aðgengilegar óháð því hvernig búsetu þeirra yrði háttað á sama tíma og haldið væri utan um eignirnar og umsýslu þeirra á einum stað.

„Hvorugt okkar hafði neina sérstaka þekkingu á slíkum félögum en á þeim tíma var venjan sú að efnuðum viðskiptavinum bankanna var gjarnan ráðlagt að stofna slík félög til að halda utan um eignir sínar. Stjórn þessara félaga var oft í höndum umsýslufyrirtækis sem bankinn lagði til og slík umsýslufyrirtæki lögðu m.a. til stjórnarmenn fyrir félagið.“

Þau segja að allar eignirnar hafi verið gefnar upp til skatts, allar skattgreiðslur hafi verið greiddar af eignunum og að Anna hafa ekki einu sinni viljað nýta sér heimildir í lögum til að fresta skattlagningu. Þau segja því rangt að segja að félagið hafi nokkurn tíman verið í skattaskjóli og það sé raunar ekki einu sinni aflandsfélagið í hefðbundnum skilningi því að félagið hafi alltaf verið skattlagt á Íslandi.

Uppruni eignana er sá að fyrir um það bil áratug hafi Anna selt hlut sinn í farsælu fyrirtæki sem  fjölskylda hennar hóf að byggja upp fyrir nærri hálfri öld.

„Með öðrum orðum var um að ræða hluta af afrakstri ævistarfs foreldra hennar og fjölskyldu. Þegar hún fékk þetta fjármagn til ráðstöfunar árið 2007 höfðum við búið í Bretlandi um nokkurra ára skeið og höfðum hug á að búa erlendis áfram, í Bretlandi eða Danmörku.“

Þau segja einnig að ástæða þess að fjármunirnir hafi ekki verið fluttir til íslands var sá að þau töldu ekki æskilegt að eiginkona þingmanns og síðar ráðherra stundaði fjárfestingar hér á landi, m.a. í Íslenskum fyrirtækjum.