„Forsætisráðuneytið gerir í öllum tilvikum skýra kröfu um að verktakar sem selja ráðuneytinu þjónustu eða vörur hlíti lögum og uppfylli í hvívetna skyldur gagnvart starfsfólki sínu. Það á m.a. við um verktakasamning ráðuneytisins við fyrirtækið Hreint ehf. sem í gildi hefur verið frá árinu 2006.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Forsætisráðuneytinu. Í henni segir að á nýliðnum vetri hafi birst fréttir um að starfsfólk verktaka sem annist þrif á Landspítala Háskólasjúkrahúsi hefðu ekki fengið greitt samkvæmt gildandi kjarasamningi. Eftir það hafi ráðuneytið ítrekað spurst fyrir um hvort ekki sé óyggjandi að fyrirtækið Hreint ehf. uppfylli að fullu ákvæði kjarasamninga vegna verkefna fyrirtækisins fyrir ráðuneytið.

„Í svörum til ráðuneytisins hefur fyrirtækið staðfest að svo sé. Ráðuneytið óskaði jafnframt fyrir skömmu eftir skriflegri yfirlýsingu frá Hreint ehf. þar sem fram kæmi skýr staðfesting á því að starfsfólk fyrirtækisins fái greitt samkvæmt gildandi kjarasamningi. Í framhaldi af því verður leitað álits viðkomandi stéttarfélags.

Fyrir liggur að ef í ljós kemur að ákvæði kjarasamninga eru ekki að fullu uppfyllt verður samningi við fyrirtækið Hreint ehf. sagt upp,“ segir í tilkynningunni.