*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Innlent 20. júní 2020 09:33

Forsætisráðuneytið og FKA áfram í samstarfi

Forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífinu hafa skrifað undir áframhaldandi samtarfssamning um Jafnvægisvog FKA.

Ritstjórn
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, undirrituðu samstarfssamninginn.
Aðsend mynd

Forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA skrifuðu undir áframhaldandi samtarfssamning um Jafnvægisvog FKA í Stjórnarráðinu í gær. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu og í henni segir að Jafnvægisvogin sé hreyfiaflsverkefni FKA og tilgangur verkefnisins sé að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi og að virkja íslenskt viðskiptalíf.

„Ísland á að vera leiðandi og vera til fyrirmyndar er kemur að jafnrétti. Áfram viljum við vera fyrirmynd annarra þjóða í málaflokknum því jafnréttismál eru samfélagsmál, mál okkar allra og fjölbreytileikinn mikilvægur í sjálfbærum heimi,“ segir í tilkynningunni.

„Það er ómetanlegt að finna einlægan áhuga og velvilja forsætisráðherra og þeirra sem fara fyrir jafnréttismálum á vegum ráðuneytisins í garð Jafnvægisvogarinnar. Ég er bjartsýn og jákvæð fyrir framhaldinu og er sannfærð um að við munum velta við stórum jafnréttissteinum í átt til kærkominna breytinga. Styrkur ráðneytisins gerir okkur kleift að ráða verkefnastjóra sem getur einbeitt sér að því að koma á auknu jafnvægi í stjórnunarstöðum á Íslandi," sagði Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður Félags kvenna í atvinnulífinu við undirritun í Stjórnaráði íslands á Kvenréttindadaginn 19. júní 2020.

Jafnvægisvog FKA er samstarfsverkefni FKA við forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Morgunblaðið og Pipar\TBWA. Stærsti viðburður Jafnvægisvogarinnar er ráðstefna sem haldin er árlega þar sem boðið er uppá erindi og fyrirlestra úr atvinnulífinu sem koma að jafnréttismálum kynjanna með ýmsum hætti. Á ráðstefnunni Jafnrétti er ákvörðun, sem fór fram á Grand Hótel í fyrra, var mikill fjöldi þátttakenda sem fagnaði með þeim aðilum sem hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar.

Verkefnið hefur verið í vinnslu frá árinu 2017 og náð að festa sig í sessi. Viðurkenningar hafa verið veittar til sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem hafa sett sér markmið og náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar á sviði jafnréttis.

„Árangur Jafnvægisvogarinnar varð strax sýnilegur eftir fyrsta ár verkefnisins. Viðurkenningarhafar hafa boðið heim og kynnt fyrir öðrum þátttakendum hvernig þeir hafa farið að. Deloitte hefur annast gagnaöflun fyrir mælaborð Jafnvægisvogarinnar og verkefnastjóri í samráði við skrifstofu FKA er límið og vængir verkefnisins,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.