Venesúela hefur hafið forsölu á nýju olíurafmynt sinni, petró, en ríkið hyggst safna hátt í 6 milljörðum dala með útgáfu myntarinnar.

Forsala rafmyntarinnar verður sérvarin með olíulindum landsins samkvæmt tilkynningu frá Tareck El Aissami, varaforseta Venesúela.

Ef áætlanir ganga eftir mun forsölunni ljúka þann 19. mars en viðmiðunarverð er 60 dalir og er það verð byggt á janúarverði olíutunnunnar.

Stefnt er að því að gefa út 38,4 milljónir petróa í forsölunni en að henni lokinni er ætlunin að bjóða aðrar 44 milljónir petróa út.

Útgáfa rafmyntarinnar kemur í kjölfarið á algjöru verðfalli gjaldmiðils landsins, bólívarsins, en í dag er skiptigengi hans á svarta markaðnum við dollar um 235.000.