*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 8. október 2014 11:26

Forsendur fyrir farsælli losun fjármagnshafta

Seðlabanki Íslands segir áhættu í fjármálakerfinu lítið hafa breyst á síðustu mánuðum.

Ritstjórn
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Seðlabanki Íslands hefur birt annað hefti af skýrslu um fjármálastöðugleika. Heftið var kynnt á fundi í Seðlabankanum nú í morgun.

Í skýrslu Seðlabankans kemur fram að áhætta í fjármálakerfinu hafi lítið breyst á síðustu mánuðum. Viðvarandi fjármagnshöft og áhætta sem tengist þeim og losun þeirra séu enn efst á baugi, auk endurfjármögnunaráhættu í erlendum gjaldmiðlum. Segir einnig að samanlagt eiginfjárhlutfall stóru viðskiptabankanna sé komið yfir 27%, vanskilahlutföll hafi farið lækkandi og lausafjárstaða bankanna, einkum í erlendum gjaldmiðlum, sé sterk.

Seðlabankinn telur efnahagshorfur hér á landi að mörgu leyti betri en í helstu viðskiptalöndum. Áætlað sé að reka ríkissjóð með afgangi á þessu ári og ríkissjóður hafi enn og aftur sýnt fram á markaðsaðgang að erlendum lánsfjármörkuðum á viðunandi kjörum. Auk þess hafi munur á gengi krónunnar og aflandsgengi dregist verulega saman á síðustu mánuðum, og séu því sem stendur efnahagslegar forsendur fyrir farsælli losun fjármagnshafta.