„Efnahagshorfur eru að mörgu leyti betri hér á landi en í helstu viðskiptalöndum, hagvöxtur hefur verið meiri hér á landi, verðbólga er nálægt verðbólgumarkmiði, ríkissjóður rekinn með afgangi og við- varandi afgangur er af utanríkisviðskiptum." Þetta segir í nýbirtri ársskýrslu Seðlabanka Íslands fyrir árið 2014.

„Ríkissjóður hefur enn og aftur sýnt fram á markaðsaðgang að erlendum lánsfjármörkuðum á viðráðanlegum kjörum og markaðsaðgengi annarra innlendra aðila hefur aukist. Auk þess hefur munur á skráðu gengi krónunnar og aflandsgengi hennar minnkað og jákvæður vaxtamunur Íslands gagnvart helstu viðskiptalöndum er verulegur. Sem stendur virðast því vera efnahagslegar forsendur fyrir farsælli losun fjármagnshaftanna," segir jafnframt.

Föllnu bankarnir stærsti áhætturþátturinn

Í skýrslunni segir að mikilvægt skref í átt að afnámi hafta hafi verið stigið þegar tekist hafi að lengja í lánstíma á skuldabréfum gamla Landsbankans í fyrra, en uppgjör þrotabúa föllnu bankanna séu eftir sem áður stærsti óvissuþátturinn tengdur afnámi fjármagnshafta.

„Forsenda þess að hægt sé að losa fjármagnshöftin án umtalsverðs óstöðugleika er að lausn finnist á þeim greiðslujafnaðarvanda sem stafar af greiðslum til kröfuhafa af innlendum eignum skráðum í krónum."