*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 10. september 2020 08:16

Forsendur lífskjarasamnings metnar

Aðilar vinnumarkaðarins hafa til loka september mánaðar til að meta hvort forsendur lífskjarasamningsins sé brostnar eður ei.

Ritstjórn
Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Aðilar vinnumarkaðarins hafa til loka september mánaðar til að meta hvort forsendur lífskjarasamningsins hafi staðist eða hvort forsendur samningsins séu brostnar. Umræddar forsendur eru þrjár talsins. Í fyrsta lagi að kaupmáttur launa hafi aukist á samningstímanum samkvæmt markmiðum samningsins um að hækka lægstu laun, í öðru lagi að vextir lækki og loks að fullar efndir verði á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við samninginn.

Meðal aðgerða sem kynntar voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var lengra fæðingarorlof, lægri tekjuskattur, auknar barnabætur og auðveldari íbúðarkaup. Voru aðgerðirnar sagðar nýtast best ungu fólki og þeim tekjulægri. Að auki gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um aðgerðir til að draga úr vægi verðtryggingar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann telji forsendur allra hafa brostið vegna kreppunnar sem COVID-19 hefur valdið. Engin innistæða sé fyrir samningsbundnum launahækkunum um næstu áramót vegna kreppunnar.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur hins vegar sagt að þær tvær forsendur er snúi að kaupmáttaraukningu og vaxtalækkun hafi haldið, en aftur á móti þurfi að ræða yfirlýsingar stjórnvalda betur við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins.