Már Guðmundsson seðlabankastjóri beitti sér persónulega gegn því að Heiðar Már Guðjónsson fengi að kaupa Sjóvá haustið 2010. Már taldi að Heiðar Már hefði brotið lög um gjaldeyrismál. Nú er komið í ljós að svo var ekki.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í ítarlegri fréttaskýringu í lok nóvember 2010 kom Már Guðmundsson seðlabankastjóri í veg fyrir að Heiðar Már fengi að kaupa Sjóvá. Heiðar Már hafði ásamt hópi fjárfesta boðið í félagið. Hann átti hæsta boð í félagið en dró sig að lokum út úr söluferlinu eftir að hafa setið undir ásökunum af hálfu Seðlabankans um að hafa brotið lög um gjaldeyrismál.

Heiðar Már átti fundi í Seðlabankanum með lögmönnum sínum, þeim Reimari Péturssyni hrl. og Birgi Tjörva Péturssyni hdl. 22. okt. 2010. Þá hafði Heiðar Már átt í símasamskiptum við Má nokkrum dögum áður þar sem Már tjáði honum að ekki væri hægt að ganga frá sölunni á Sjóvá þar sem félag Heiðars Más væri í rannsókn hjá gjaldeyriseftirlitinu. Már hafði nokkrum dögum áður hringt í Birgi Tjörva og tilkynnt honum að hægt væri að ganga frá sölunni á Sjóvá ef Heiðar Már myndi draga sig út úr ferlinu. Már var og er stjórnarformaður Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) sem hélt utan um hlutinn í Sjóvá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.