Sindri Sindrason, forstjóri CRI segir fyrirtækið hafa verið opið fyrir fjárfestingu í tólf ár. Rætt var við Sindra í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

„Við höfum notið mikils trausts hjá framsýnum fjárfestum og safnað um 50 milljónum dollara í hlutafé og aflað styrkja upp á um sex milljónir evra frá íslenskum og evrópskum þróunarsjóðum, en að stærstum hluta sjóðum Evrópusambandsins. Stuðningur hins opinbera sem telur mest er endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði. „Allt sem við gerum er þróunarstarf, bæði tæknilegt og markaðslegt,“ segir Sindri.

„Íslenskur fjármagnsmarkaður er ekki auðveldur við að eiga. Það er erfitt að fjármagna svona uppbyggingu á Íslandi en það er ekkert nýtt. Allir fjárfestingasjóðir ætlast til að verðmæti fjárfestingar margfaldist á þremur til fimm árum. Forsendur þeirra eru mjög einsleitar og allir sjóðirnir eru litlir og leita á sömu mið. Þeir eru mikið stílaðir upp á upplýsingatækni en tækni eins og okkar er annars eðlis, krefst meiri fjárfestingar og þróun getur tekið lengri tíma. Hins vegar, ef allt gengur að óskum, ertu kominn á markað sem mun vaxa mikið og til mjög langs tíma. Við höfum fyrst og fremst náð til framsýnna einstaklinga sem eru tilbúnir að horfa til lengri tíma og erlendra fjárfesta sem þekkja markaðinn.“

Skattar frekar en aukagreiðslur

Sindri á von á að í framtíðinni verði þeir sem menga skattlagð­ ir fyrir sinn sóðaskap, frekar en að varpa kostnaðinum yfir á notendur grænnar orku. „Færa má rök fyrir að ástæða þess að olía sé eins ódýr og hún er í dag sé að kostnaður sem hún veldur er ekki talinn til. Ef við tökum einfalt dæmi þá gat ýmis iðnaður hér áður fyrr sullað sínum úrgangi út í næstu á eða út í sjó. Núna er stór hluti af fjárfestingu í iðnaði búnaður til að meðhöndla þennan úrgang og losun hans út í umhverfið bönnuð. Sömu sögu er að segja af rekstrarkostnaði, iðnaðurinn gerir ráð fyrir því að þurfa að reka hreinsibúnaðinn og kostnaðurinn bætist við vöruverðið. Kostnaður þeirra sem menga loftið er hins vegar stórkostlega vantalinn, þar með er varan seld undir kostnaðarverði. Þar af leiðandi held ég að kolefnisskattar frekar en niðurgreiðslur eða stuðningur við grænan iðnað séu betri lausn til framtíðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .