Ross Perot, milljarðamæringurinn sem fór í eitt best heppnaða forsetaframboð frambjóðenda utan stóru flokkanna tveggja í Bandaríkjunum á síðustu áratugum er látinn 89 ára að aldri.

Perot, sem lést úr hvítblæði sem hann greindist með í febrúar, vann sig upp úr sárri fátækt á tímum kreppunnar miklu, en hann seldi tölvufyrirtækið sem hann stofnaði árið 1962, Electronic Data Systems, til General Motors fyrir 2,5 milljarða dala árið 1984. Seinna stofnaði hann fyrirtækið Perot Systems.

Árið 1992 bauð Perot sig fram til forseta Bandaríkjanna utan flokka og fjármagnaði framboð sitt mikið til sjálfur, en í þeim kosningum sigraði demókratinn Bill Clinton sitjandi forseta Georg H.W. Bush eldri en hann hafði verið varaforseti hins geysivinsæla forseta Ronald Reagan sem margir þakka endurreisn Bandaríkjanna.

Hlaut Clinton 43% atkvæða en Bush 37,4%, meðan Perot, sem hlaut 19% atkvæða, höfðaði mikið til hefðbundinna kjósenda repúblikana með loforðum um skattalækkanir. Bush hafði fyrir kosningarnar árið 1988 sagt hin frægu orð: Lesið af vörum mínum, engir nýir skattar, en ekki staðið við það þegar hann sá fram á fjárlagahalla.

Perot bauð sig fram að nýju árið 1996, þá sem frambjóðandi Umbótaflokksins, en fékk þá einungis 8,4% atkvæða, sem þó gæti hafa dugað til að Bob Dole, sem fékk 40,7% næði ekki að fella Clinton, sem fékk 49,2% atkvæða.