Utankjörfundarkosning í forsetakosningunum hefur verið kærð. Beinist kæran að þeim hluta atkvæðagreiðslunnar sem fram fór fyrir birtingu lista yfir nöfn löglegra frambjóðenda 25.maí frá því að atkvæðagreiðslan hófst 30. apríl.

Byggir kæran á því að það samræmist ekki ákvæðum laga nr. 36 frá 1945 um framboð og kjör forseta Íslands að hefja utankjörfundargreiðslu áður en upplýsingar lágu fyrir um hvaða einstaklingar hefðu skilað inn löglegu framboði.

Er krafa þeirra sem leggja kæruna fram að sá hluti utankjörfundarkosningarinnar sem fór fram áður en nöfn frambjóðenda lágu fyrir, verði felldur úr gildi. Segja þeir að frambjóðendur hafi mikilvæga hagsmuni af því að kosningarnar hefjist ekki fyrr en opinberlega hefur verið tilkynnt um framboð þeirra. Það sé grundvallarforsenda þess að allir frambjóðendur standi jafnfætis frá upphafi kosningabaráttu sinnar.

Enn fremur vilja kærendur vekja athygli á því að kæran tekur í sama streng og athugasemdir í skýrslum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, um kosningar til Alþingis 2009 og 2013.