Robert B. Zoellick, forseti Alþjóðabankans, kemur til Íslands fimmtudaginn 13. mars, til að funda með ráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn bankans og til viðræðna við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.

Ísland situr í þróunarnefnd Alþjóðabankans í Washington fyrir hönd ríkjanna átta um þessar mundir.

Alþjóðabankinn er stærsta alþjóðastofnunin á sviði þróunarsamvinnu og hefur málefnavinna á vettvangi bankans verið stórefld á síðustu misserum jafnframt því sem stuðningur við ýmis verkefni á vegum bankans hefur verið aukinn, að því er fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins.

Á fundinum á fimmtudag verður m.a. fjallað um loftslags- og orkumál, hlutverk einkageirans og framlag kvenna í efnahagsmálum.