„Það er mikilvægt að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt gerist aftur og það kallar á að farið verði vandlega í saumana á atburðarásinni.“

Þetta sagði Grétar Þorsteinsson, fráfarandi forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um þá efnahagskrísu sem nú ríkir hér á landi, þegar hann setti ársfund ASÍ í morgun.

Hann sagðist í ræðu sinni vita að það þjónaði ekki tilgangi að minna á að verkalýðshreyfingin hefði um nokkurra ára skeið bent á hætturnar samfara þenslunni og útrásinni. Þó sagði hann að það hefði ekki hvarflað að sambandinu að lendingin yrðu jafn hörð og raun ber vitni.

„Henni verður ekki lýst öðru vísi en sem algjöru skipbroti þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi undanfarin ár,“ sagði Grétar.

Grétar sagði eðlilegt að helstu gerendur yrðu látnir standa reikningsskil gerða sinna hefðu þeir gert eitthvað misjafnt. Þá sagði hann að nauðsynlegt væri að fara yfir hlutina til að „hreinsa andrúmsloftið, læra af mistökunum og tryggja að við stöndum ekki aftur í sömu sporum,“ og bætti því við að verkalýðshreyfingin myndi gegna mikilvægu hlutverki í þessari yfirferð.

Þá sagði Grétar að mikilvægt væri að tryggja að gangvirki atvinnulífsins haldi áfram að snúast eins og kostur er.

„Það er undirstaða þess að hægt verði að halda uppi vörnum fyrir heimilin í landinu og hefja á þeim grundvelli nauðsynlegt uppbyggingarstarf,“ sagði Grétar.

„Lengi hefur verið bent á að sú þumalskrúfa á heimili og fyrirtæki sem háir vextir Seðlabankans eru, slái ekki á verðbólgu við þær aðstæður sem hafa ríkt í efnahagslífinu,“ sagði Grétar jafnframt.

„Við þurfum ekki annað en skoða sögu undanfarinna missera til að fá það staðfest. Það þarf að lækka vexti hratt og í stórum skrefum. Vaxtalækkunin nýverið var vissulega skref í áttina, en meira þarf til. Jafnframt þarf að styrkja gengi krónunnar eins hratt og mögulegt er. Að öðrum kosti eigum við á hættu að veikt gengi krónunnar hafi það í för með sér að óðaverðbólga festist í sessi. Það er aftur á móti alveg ljóst í mínum huga að þetta gerist ekki nema með því að okkur takist að skapa að nýju trú umhverfisins á að við getum unnið okkur út úr vandanum. Ég veit að það er ljótt að segja það – en Ísland er í augum umheimsins rúið trausti. Og þótt sjálfstraustið sé mikilvæg og nauðsynleg forsenda, þá dugar það ekki eitt og sér.“