Það er fyrirsjáanlegt mikið vandamál í sumar þegar unga fólkið kemur úr skólanum og lánakerfi LÍN byggir á því að nemendur skapi sér töluverðar tekjur yfir sumarið.

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í samtali við Viðskiptablaðið.

Gylfi segir að nauðsynlegt sé að nemendum sé gefinn kostur á því að sækja skóla yfir sumarið að því gefnu að LÍN (Lánasjóður íslenskra námsmanna) láni fyrir sumarönnum. Það sé mun betri kostur en að nemendur komi í stórum stíl út á vinnumarkað en hann segir fyrirsjáanlegt að fyrirtæki muni ekki ráða sér sumarstarfsfólk í sama magni og áður hefur þekkst.

„Við skulum heldur ekki gleyma því að margir vinnuveitendur eru búnir að minnka starfshlutfall starfsmanna,“ segir Gylfi og bætir við að ekki gerist þörf á vinnumarkaði fyrir sama fjölda sumarstarfsmanna og áður.

„Það verður eitthvað um sumarvinnu en með breyttu sniði,“ segir Gylfi.

Þá segir Gylfi að LÍN þurfi að endurskoða framfærslugrunn vegna námslána. Lánin séu lág og dugi oft ekki fyrir húsaleigu. Hann segir galla á framfærslugrunni oft hvetja fólk til að hætta í námi og leita frekar fyrir sér á vinnumarkaði.