Leiðtogaráð Evrópusambandsins mun líklega tilnefna nýjan forseta framkvæmdastjórnar sambandsins í dag. Forystufólk aðildarríkjanna skipar leiðtogaráðið, en það er nú statt í Brussel, m.a. til að tilnefna nýjan forseta. Fjallað er um málið á vef BBC .

Allar líkur eru á að fyrrum forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean- Claude Juncker, verði valinn til að gegna embættinu þrátt fyrir mikla andstöðu frá David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Venjulega er samstaða um tilnefningu forsetans innan leiðtogaráðsins en nú lítur út fyrir að Bretar og Ungverjaland muni vera í andstöðu. Lengi vel virtust fleiri ríki deila skoðun Breta, t.a.m. Svíþjóð og Holland,  en nú hafa sífellt fleiri gefið út að þeir styðji Juncker. Því telja flestir að hann verði tilnefndur af leiðtogaráðinu.

Megin ástæða þess að Cameron er á móti því að Juncker gegni stöðu forseta er sú skoðun Junckers að heillavænlegt sé fyrir ESB að verða nánara sambandsríki. Cameron telur að með því verði staðið í vegi fyrir framförum á sambandinu.