Óhætt er að segja að forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko, fari sýnar eigin leiðir í baráttunni gegn kórónuveirunni. Meðan lönd víða um heim hafa sett á samkomubönn, útgöngubönn og fleiri takmarkanir á frelsi einstaklingsins, til að freista þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar, hefur forsetinn hvatt landa sína til að drekka vodka, fara í gufuböð og halda áfram að fara í vinnuna. Þannig ætti heilsa þeirra að haldast í lagi. CNBC greinir frá.

Landamæri Hvíta-Rússlands eru enn opin, en fjölmörg ríki á meginlandi Evrópu hafa tekið upp á því að loka landamærum sínum tímabundið meðan kórónuveiran gengur yfir. Virðist því vera sem að forsetinn óttist veiruna skæðu lítið sem ekkert.

Alls hafa greinst 152 kórónuveirusmit í Hvíta-Rússlandi en enn sem komið er hefur enginn látist af völdum veirunnar í landinu. Um 9,5 milljónir manna búa í Hvíta-Rússlandi.

Ekkert íþróttabann

Forsetinn kveðst ekki vera á þeim buxum að setja á samkomubönn eða annars konar takmarkanir og gefur lítið fyrir þó að aðrar þjóðir sem hafi gripið til slíkra aðgerða. Í flest öllum löndum heimsins hefur m.a. verið gert tímabundið hlé á allri íþróttaiðkun á meðan veiran lætur á sér kræla. Í Hvíta-Rússlandi hefur hins vegar ekki verið gert neitt slíkt hlé, enda telur forsetin íþróttir vera bestu vörnina gegn vírusum.

Hefur kastljós knattspyrnuáhugamanna víða um heim beinst að deildarkeppninni í Hvíta-Rússlandi, þar sem sú deild er ein af fáum deildum sem ekki hefur verið stöðvuð á alþjóðavísu. Miðað við orð forsetans virðist ekki stefna í að gert verði hlé á deildarkeppninni.

Sonur þingmanns spilar í efstu deild Hvíta-Rússlands

Þess má til gamans geta að við Íslendingar eigum einn fulltrúa í efstu deild Hvíta-Rússlands í knattspyrnu. Sá heitir Willum Þór Willumsson, en hann er leikmaður BATE Borisov. Faðir hans, Willum Þór Þórsson, er landsmönnum kunnugur, en hann situr á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins, auk þess sem hann hefur þjálfað hin ýmsu knattspyrnulið hér á landi við góðan orðstír.