Forseti þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Göran Lennmarker, verður á Íslandi dagana 21. og 22. apríl.

Það er í fyrsta sinn sem forseti ÖSE-þingsins sækir Ísland heim en forsetinn hefur lagt mikla áherslu á að efla tengsl  við þau 56 þjóðþing sem eiga aðild að ÖSE-þinginu frá því hannn tók við embætti sumarið 2006. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþingi.

Lennmarker mun eiga fund  með Sturlu Böðvarssyni forseta Alþingis til að ræða málefni ÖSE-þingsins og hlutverk þess. Auk þess mun Lennmarker eiga fund með sendinefnd Íslands á ÖSE-þinginu, utanríkismálanefnd Alþingis og fulltrúum utanríkisráðuneytis.

Lennmarker hefur verið fulltrúi í sendinefnd sænska þingsins á ÖSE-þinginu frá árinu 1996. Hann hefur gegnt margvíslegum embættum fyrir ÖSE-þingið og var m.a. sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins varðandi átökin milli Armeníu og Aserbaídsjan um Nagorno-Karabakh hérað, sem eru ein þeirra „frosnu átaka“ sem hafa sett svip sinn á samskipti landa eftir lok kalda stríðsins í Austur-Evrópu.

Í heimsókn sinni mun Lennmarker miðla af reynslu sinni við að koma að lausn staðbundinna átaka eftir lok kalda stríðsins á opnum fundi sem haldinn verður mánudaginn 21. apríl kl. 18:00 á Hótel Sögu á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs. Erindi hans á fundinum mun fjalla um stjórnmálaástandið í Rússlandi og fordæmisgildi viðurkenningar á sjálfstæði Kosovo fyrir „frosin átök“ í Austur-Evrópu þar sem Rússland á hagsmuna að gæta eins og í tilviki Nagorno-Karabakh héraðs.