Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, og rektor HR, Dr. Ari Kristinn Jónsson, afhentu í gær verðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í rannsóknum, kennslu og þjónustu.

Rannsóknarverðlaun HR í ár hlýtur Dr. Anna Ingólfsdóttir, prófessor við tölvunarfræðideild HR. Anna er forstöðumaður vísinda við ICE-TCS þekkingarsetur innan tölvunarfræðideildar HR og leiðir rannsóknarhóp um samsíða ferli.  Rannsóknir hennar eru á sviði fræðilegrar tölvunarfræði, reiknilíkana og rökfræði í tölvunarfræði.

„Það var mat nefndar eftir að tilnefningar lágu fyrir að Anna væri vel að verðlaununum komin enda hefði hún verið í fremstu röð vísindamanna Háskólans í Reykjavík í mörg ár. Hún hefur verið í efsta flokki í rannsóknarmati frá upphafi og hefur á síðustu fimm árum birt 53 ritrýndar greinar, átt þátt í níu styrkjum til skólans og hefur leiðbeint fimm nýdoktorum og þremur doktorsnemum,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík við athöfnina í gær.

Kennsluverðlaun HR árið 2013 hlýtur Halldór Halldórsson, dósent við tölvunarfræðideild HR. Halldór hefur kennt við háskólann í fjölda ára og átt stóran þátt í uppbyggingu hans. Halldór hefur einkum kennt línulega algebru, strjála stærðfræði, stöðuvélar og reiknanleika og tölulega greiningu.

Handhafi þjónustuverðlauna HR árið 2013 er Guðrún Gyða Ólafsdóttir, móttökustjóri HR. Við val á handhafa þjónustuverðlauna er litið til gæða þjónustu, frumkvæðis, tengsla við starfsfólk og nemendur og niðurstöður úr þjónustukönnun.

Verðlaun HR eru veitt á hverju ári og er markmið með þeim að hvetja kennara og starfsfólk háskólans til nýsköpunar, þróunarstarfs, rannsókna og framúrskarandi þjónustu.

Nemendur í tækni- og verkfræðideild sýna forseta rannsóknarverkefni sitt.
Nemendur í tækni- og verkfræðideild sýna forseta rannsóknarverkefni sitt.