Í lokaræðu alþjóðlegs þings um loftslagsbreytingar í Bangladesh kynnti forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hugmyndir sínar um stofnun sérstaks Himalayaráðs. Hugmyndirnar hafa vakið mikla athygli og fjallað hefur verið um þær í helstu blöðum og fjölmiðlum Bangladesh, að því er segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Ólafur Ragnar hvatti til þess að ríkin í og við Himalayafjöllin fylgdu fordæmi ríkja á norðurslóðum og mynduðu sérstakt samvinnuráð, í stíl við Norðurskautsráðið.

Auk þess að sækja þing um loftslagsbreytingar fundaði forseti Íslands með forseta Bangladesh um samstarf ríkjanna á sviði fiskveiða.

Einnig heimsótti Ólafur Ragnar höfuðstöðvar Grameen bankans í Dakka, sem stofnaður var til að þjóna hinum fátækustu, öreigum og betlurum. Ólafur Ragnar fundaði einnig með Muhammad Yunus, stofnanda og stjórnanda bankans, en hann hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2006 fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn örbrigð í heiminum.

Bankinn starfar nú í 82.000 þorpum í Bangladess. Útibúin eru 2.521 og 27.200 manns starfa hjá bankanum. Lántakendur eru 7.500.000 talsins og eru 97% þeirra konur.