Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti Orkugarð sl. miðvikudag, en þar er aðsetur Orkustofnunar, Jarðhitaskóla sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana. Heimsóknin hófst á fundi með orkumálastjóra og forstjóra ÍSOR ásamt sérfræðingum frá þessum stofnunum. Þar var farið yfir stöðu Íslands á sviði orkumála erlendis í ljósi þeirrar djúpu efnahagskreppu sem nú ríkir.

Í umræðunum kom fram að þrátt fyrir þessar þrengingar séu enn vaxandi tækifæri fyrir íslenska sérfræðiþekkingu og að mörg verkefni sem í gangi eru standi enn styrkum fótum.

Af hálfu stofnananna var lögð áhersla á jákvætt framlag forsetaembættisins undanfarin ár til kynningar á íslenskri þekkingu á sviði orkumála og til þess að koma jarðhitanum að við mótun nýrrar orkustefnu.

Kom fram að þótt allar forsendur fyrir aðkomu íslenskra peningastofnana hafi breyst ,sé enn ástæða til þess að halda merkinu hátt og stefna á frekari öflun verkefna þar sem þekking og reynsla íslenskra fræðimanna getur nýst.

Á fundinum var forsetanum einnig kynnt útboð Orkustofnunar á leitarleyfum fyrir olíu og gas á Drekasvæðinu og minntist hann af því tilefni fyrri afskipta sinna af samningamálum um rétt Íslands á þessu svæði.