*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 1. janúar 2014 13:36

Forseti Íslands: Samstaða þjóðarinnar mikilvæg

Ólafur Ragnar Grímsson sagði samstöðu þjóðarinnar í mikilvægum málum koma henni áleiðis.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þjóðin hefur gengið samstíga í gegnum ýmsar þrautir sem hún hefur staðið frammi fyrir í gegnum tíðina. Brýnt er að nýta enn frekar þessa samstöðu, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í nýársávarpi sínu í dag. Hann kom m.a. inn á Icesave-málið, sem Ísland hafði betur fyrir EFTA-dómstólnum í byrjun nýliðins árs, útfærslu landhelginnar og sigurinn í baráttunni fyrir heimkomu handritanna.

„Oft er haft á orði að við Íslendingar séum eins og ein fjölskylda, sýnum samhug þegar áföll dynja yfir eða hamfarir ógna byggðarlögum. Á örlagastundum hefur samstaðan ráðið úrslitum og nú í vetur vorum við enn á ný minnt á sigrana sem hún skóp,“ sagði Ólafur Ragnar sem bætti jafnframt við að nú blasi við þjóðinni tímamót, m.a. fimm ára glíma við afleiðingar bankahrunsins og framundan skeið endurreisnar og því brýnt að nýta enn frekar samstöðuna.

Mikilvægi norðurslóða

Ólafur Ragnar kom jafnframt inn á málefni norðurslóða í ávarpi sínu. Hann benti jafnframt á samstöðuna á Alþingi, sem samþykkti stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Þetta sagði hann fagnaðarefni enda muni það skapa traustar undirstöður að nýju burðarvirki í alþjóðatengslum Íslendinga og muni samþykktin skila því að framvegis muni rúmur helmingur leiðtoga G20-rikjanna sitja með Íslendingum við ákvarðanaborðið við mótun nýs norðurs.

„Þessi þáttaskil skapa Íslendingum fjölda nýrra tækifæra – í vísindum, viðskiptum, atvinnulífi og menningu. Eyjan í útnorðri er nú komin í þjóðbraut þvera, lykilstöðu á svæði sem ráða mun miklu um þróun hinnar nýju aldar; áfangastaður þegar æ stærri hluti auðlindanýtingar og vöruflutninga verður um Norðrið; að ógleymdum milljónum ferðamanna frá öllum álfum sem vilja upplifa ævintýrin sem búa í náttúrunni, dást að miðnætursól og norðurljósum,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson í nýársávarpi sínu.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is