Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff sendu í morgun heillaóskaskeyti til Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, Michelle, konu hans og dætrum þeirra í tilefni af sigri í forsetakosningunum.

Í skeytinu áréttaði forseti Íslands að vinátta og samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna eigi sér djúpar rætur og hvatti til aukinnar samvinnu á komandi árum, einkum í málefnum Norðurslóða og um nýtingu hreinnar orku.

Fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu að bráðnun íss og jökla í okkar heimshluta og öfgafull veðrabrigði minni okkur á að brýnt sé að grípa til aðgerða. Einungis gerbreyttur orkubúskapur, sem byggður er á nýtingu hreinnar og endurnýjanlegrar orku, geti komið í veg fyrir að loftslagshamfarir hrjái jarðarbúa í vaxandi mæli. Bandaríkin muni á nýju kjörtímabili Obama taka við formennsku í Norðurskautsráðinu. Innan vébanda þess og með samstarfi við aðrar þjóðir þurfi að efla rannsóknir og þekkingu og leggja grundvöll að varanlegum lausnum.

Víðtæk þekking og reynsla Íslendinga í nýtingu hreinnar orku geti í þessum efnum verið mikilvægt framlag enda hafi á undanförnum árum verið unnið að margvíslegum samstarfsverkefnum þjóða á því sviði.

„Forseti Íslands hvatti að lokum til þess að komandi kjörtímabil verði nýtt til að efla enn frekar samvinnu og tengsl þjóðanna í þágu þessara verkefna og mætti í þeim efnum byggja á traustu sambandi íslenskra og bandarískra stjórnvalda, háskóla, vísindastofnana og víðskiptalífs,“ segir í skeytinu.