Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson mun heimsækja Bangladesh undir lok ágúst en þar mun hann meðal annars halda fyrirlestur um loftslagsmál.

Þetta kemur fram á vef BDNews24 í Bangladesh.

Samkvæmt vef blaðsins er þetta í fyrsta skipti sem íslenskur forseti sækir landið heim en Ólafur Ragnar mun sækja loftslagsráðstefnu í Dhaka háskólanum.

„Forseti Íslands mun koma hingað til lands þann 26. ágúst. Það má segja að um einkaheimsókn sé að ræða en ekki opinbera heimsókn,“ hefur blaðið eftir Ahmed Chowdhury, sem blaðið titlar utanríkismálaráðgjafa.

Þá kemur fram að Dhaka háskólinn og hinn bandaríski Ohio State háskólinn standa saman að sex daga ráðstefnu um loftslagsmál og matvælaöryggi í Suður Asíu, í lok ágúst.

„Forsetinn mun njóta þess öryggis sem þjóðarleiðtogar njóta,“ hefur blaðið eftir Md Touhid Hossain, utanríkisráðherra Bangladesh

Þá er gert ráð fyrir að forseti Íslands fari frá Bangladesh þann 30. ágúst.