Þeir sem gera lítið úr gagnrýni háskólasamfélagsins um frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá minna á þá sem virða að vettugi rök vísindamanna um hlýnun jarðar. Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í nýársávarpi sínu. Forsetinn ræddi ítarlega um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá, sem skyldi vera einföld og skýr. Hann benti hins vegar á að lítil sem engin umræða hafi átt sér stað um hið nýja stjórnkerfi sem tillögurnar feli í sér. Nú blasi við um áramótin að umræðan sé komin í öngstræti.

Gæti rekið alla ráðherrana

Ólafur Ragnar sagði m.a. margt einkennilegt í tillögunum sem drægi úr völdum bæði forseta og forsætisráðherra og leggja ríkisráðið niður. Við það myndi þjóðhöfðingi og ríkisstjórn engan vettvang hafa lengur til samráðs þegar þörfin væri brýn, forystusveit sem þjóðin sýndi afgerandi traust í kosningum yrði þegar hún tæki sæti í ríkisstjórn svipt almennu málfrelsi á Alþingi, einstaklingar gætu auðveldar en áður náð þingsæti í krafti fjölmiðlafrægðar og hlutur landsbyggðar yrði rýrður mjög. Þá myndu formenn stjórnmálaflokka ekki lengur gegna sérstöku hlutverki við myndun ríkisstjórna heldur myndi forseti lýðveldisins stýra för í meiri mæli en áður.

„Ýmsar ríkisstjórnir lýðveldistímans hefðu í þessari skipan vart orðið til og hin nýju ákvæði að öllum líkindum komið í veg fyrir myndun minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs í janúar árið 2009,“ sagði Ólafur Ragnar og lagði áherslu á að þessu til viðbótar feli tillögurnar í sér að forsætisráðherra fengi agavald yfir ráðherrum annarra flokka og gæti einn rekið þá alla.

Tilraun sem á engan sinn líka

„Það virðist sem tillögumenn telji, að helsti galli íslenskrar stjórnskipunar á undanförnum áratugum hafi verið að forsætisráðherrar, og reyndar forsetinn líka, hefðu þurft enn meiri völd. Frumvarpið að nýrri stjórnarskrá felur vissulega í sér gagnleg ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, þjóðareign og mannréttindi, en það býr líka til allt annað stjórnkerfi en við höfum búið að frá lýðveldisstofnun. Yrði tilraun um stjórnkerfi sem ætti sér engan líka á Vesturlöndum,“ sagði forsetinn og lagði áherslu á að hlusta á rök þeirra sem veiti ráðgjöf, svo sem sérfræðinga háskólanna.

„Helsti lærdómur hrunsins var að taka meira mark á þeim sem vara við hættunum handan við hornið, að hirða lítt um hin hollu ráð verður aldrei farsælt,“ sagði Ólafur Ragnar að lokum en bætti við, að reynist meirihluti landsmanna telja þessa þætti tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá til bóta þá þurfi slíkur vilji að koma skýrt fram því ekki var spurt sérstaklega um þá í atkvæðagreiðslunni í október.