„Við höfum líkt og aðrar þjóðir lent í hringiðu hamfaranna í hagkerfi heimsins en þó beðið meira tjón en flestir aðrir, að nokkru leyti vegna mistaka og vanrækslu á heimaslóð, en einnig vegna þess að stoðir fjármálakerfisins sem hafið var til vegs á Vesturlöndum á undanförnum áratugum reyndust fúnar, hreyfiaflið skyndigróði, skammtímafengur, en aðhaldi, sparnaði, varfærni og almannaheill einatt vikið til hliðar.“

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í áramótaávarpi sínu fyrir stundu en líkt og venja er á nýársdag ávarpar forseti Íslands þjóðina í sjónvarpsávarpi.

Ólafur Ragnar sagði að á slíkum vegamótum ríkti réttlát reiði í brjóstum margra og almenningur krefðist reikningsskila.

Þá sagði forsetinn að á liðnum árum hefðu margir gert mistök, stór og smá, „og það er áríðandi að hver og einn leiti þeirra og viðurkenni, dragi af þeim lærdóma,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Það hef ég reynt að gera, meta heiðarlega hvernig ég gekk of langt í málflutningi og liðsinni við starfsemi íslenskra banka og fjármálafyrirtækja erlendis, fundið hve áríðandi er að gaumgæfa betur gagnrýnisraddir og grasrótina, að efinn verður ætíð að vera með í för, einkum þegar hætt er við að kappið skyggi á forsjána; mikilvægt að muna þann gamla sannleik að hin raunverulegu verðmæti eru jafnan traustari en pappírsgróði.“

Þá sagði Ólafur Ragnar að ráðherrar í ríkisstjórnum og fulltrúar á þjóðþinginu þyrftu einnig að líta um öxl, skoða á gagnrýninn hátt margvíslegar ákvarðanir, löggjöf og regluverk.

„Sama gildir um stjórnendur í stofnunum fjármála og eftirlits, forystusveitir í bankarekstri og fyrirtækjum sem gleymdu að gæta sín í siglingu sem fór á stundum með himinskautum,“ sagði Ólafur Ragnar.

Þá minnti forsetinn á að hin svonefnda útrás hafi ekki aðeins verið verkefni fáeinna bankastjóra eða athafnamanna.

„Í henni tóku þátt með öflugum hætti þúsundir ungra Íslendinga, hámenntað fólk í ólíkum fræðum, vísindamenn og sérfræðingar, hönnuðir og listamenn. Hún setti sterkan svip á nýsköpun í atvinnulífi, vöxt háskólanna, gróskuna í menningunni. Sú samvinna tókst á margan hátt afar vel, skóp reynslu sem nýtast mun á komandi árum,“ sagði Ólafur Ragnar.

Hér má lesa ávarp forseta Íslands, Ólafs Ragnar Grímssonar í heild sinni. (pdf skjal)