Forseti Íslands hefur í dag sent forseta Frakklands, François Hollande, samúðarkveðju frá sér og íslensku þjóðinni vegna hinnar hræðilegu hryðjuverkaárásar í París sem átti sér stað í gær. Segir hann að hugur okkar og bænir séu hjá hinum látnu, fjölskyldum þeirra og vinum, sem og hjá þeim sem særðust og aðstandendum þeirra.

128 manns létust og minnst 200 særðust í samhæfðri hryðjuverkaárás í París þar sem ráðist var á nokkra staði í borginni, þ.á.m. Stade de France knattspyrnuvöllinn. Tæplega 100 manns voru myrtir í Bataclan-tónlistarhúsinu og um 30 létust í skotárás á kaffi- og veitingahús í nágrenninu. Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á voðaverkunum.

Ólafur Ragnar segir í bréfi sínu til Hollande að árásin hafi verið atlaga að frönsku þjóðinni sem og siðmenningu okkar tíma, frelsi, lýðræði og mannréttindum. Hún kalli á enn öflugri samstöðu þjóða heims gegn hinum skelfilegu öflum sem hiki ekki við að fórna lífi almennings, karla og kvenna sem ekkert hafa til saka unnið.