Suðurkóreska þingið hefur kosið um það að ákæra forseta landsins, Park Geun-hye, fyrir embættisbrot vegna spillingarmáls.

234 þingmenn kusu með ákærunni en 56 voru andvígir henni. Hwang Kyo-ahn, forsætisráðherra landsins, tekur nú við verkefnum forseta. Þúsundir manna hafa mótmælt krafist afsagnar forseta.

Spillingarmálið tengist sambandi hennar við trúnaðarvinkonu sína Choi Soon-il, sem hefur verið sökuð um að hafa notað sambönd sín við forseta landsins til þess að auðgast. Saksóknarar telja að Park hafi spilað talsvert stórt hlutverk í spillingarmálinu.

Málið verður nú tekið fyrir í stjórnlagadómstóli S-Kóreu, sem hefur 180 daga til að kveða á um úrskurð í málinu. Að minnsta kosti sex af níu dómurum þurfa að samþykkja tillögu þingsins. Ef Park verður látin taka poka sinn, þá væri hún fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins til að gera svo.

Stórfyrirtæki viðriðin málið

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá eru nokkur S-kóresk fyrirtæki viðriðið spillingarmálið. Park Geun-hye, hefur óbeint hlotið milljónir dollara styrki frá fyrirtækjunum sjö. Nú stendur yfir bein útsending frá yfirheyrslu á forstjórum fyrirtækjanna sem sökuð eru um aðild að spillingu forsetans. Forstjóri Samsung hefur meðal annars viðurkennt það að hafa gefið dóttur vinkonu forsetans dýran veðhlaupahest.