*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 31. mars 2016 17:45

Forseti Suður-Afríku braut gegn stjórnarskrá

Forsetinn heldur því fram að fjármunirnir hafi verið nauðsynlegir til að tryggja öryggi hans.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Stjórnarskrárdómstóll Suður-Afríku komst í morgun að þeirri niðurstöðu að Jacob Zuma hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins þegar hann neitaði að endurgreiða háar fjárhæðir sem teknar höfðu verið úr opinberum sjóðum.

Forsetinn hafði áður neitað að hlíta úrskurðu þess efnis að hann ætti að endurgreiða peningana en þeir voru nýttir til framkvæmda á einkaheimili hans. Í þessum framkvæmdum fólst meðal annars bygging á  sundlaug, gestahúsi og fjósi. 

Talsmenn forsetans og meðlimir í ríkistjórn hans hafa varið framkvæmdirnar og sagt þær hafa verið nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi Zuma. Þannig hafi sundlaugin t.d. verið nauðsynleg til að tryggja nægar vatnsbirgðir ef eldur kviknar. 

Dómsniðurstaðan er áfall fyrir Zuma sem undanfarið hefur setið undir ásökunum um spillingu tengdum samskiptum hans við stórfyrirtæki í landinu.  Heimildir herma að niðurstaðan veiki stöðu forsetans umtalsvert en ríkistjórn hans hefur jafnframt setið undir gagnrýni vegna  stöðnunar í efnahagslífinu og mikils atvinnuleysis í landinu.