Hans-Rudolf Merz, forseti Sviss hefur farið þess á leit við Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna að bandarísk skattayfirvöld falli frá frekari rannsóknum á starfssemi svissneska bankans UBS í Bandaríkjunum.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa bandarísk skattayfirvöld gengið hart að bankanum vegna fjölda bandarískra viðskiptavina en yfirvöld saka bankann um að hafa hjálpað bandarískum viðskiptavinum sínum að skjóta undan skatti í skjóli svissneskrar bankaleyndar.

Nú standa yfir viðræður milli ríkjanna um samstarf vegna skattaskjóla og skattalaga en í ljósi þeirra viðræðna hefur Merz krafist þess að UBS þurfi ekki að láta af hendi eldri upplýsingar um bandaríska viðskiptavini bankans.

Bandarískir viðskiptavinir UBS eru um 52 þúsund og talið er að þeir eigi um 14,8 milljarða Bandaríkjadali á reikningum bankans í Sviss.

Ljóst er að hvað sem samningaviðræðum ríkjanna líður er slíkur samningur háður samþykki löggjafavalds beggja ríkja og líklegt er að Svisslendingar greiði atkvæði um slíkt samkomulag í þjóðaratkvæðagreiðslu (sem er mjög algengt í Sviss). Merz sagði í samtali við fjölmiðla að Svisslendingar myndu að öllum líkindum hafna slíku samkomulagi ef skattarannsókn hangir enn yfir svissneskum bönkum.

Svisslendingar eru frægir fyrir bankaleynd sína og margir hafa nýtt löggjöf landsins til að geyma þar fjármagn. Allt tal um afslátt af þeirri bankaleynd er mjög viðkvæmt í Sviss og fjölmargir stjórnmálamenn í Sviss hafa mótmælt því harðlega að slíkri leynd yrði aflétt.

Marz og Geithner hittust á óformlegum fundi eftir árlegan fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr í þessum mánuði og segir Merz að Geithner hafi tekið vel í sjónarmið sín og vel komi til greina að fella niður eldri rannsóknir. Hann ítrekaði þó að ekkert samkomulag væri í hendi, aðeins hefði verið um óformlegar viðræður að ræða.