Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Ísland, hefur boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum klukkan 15 í dag Nær öruggt er talið að þar muni hann tilkynna um hvort hann skrifi undir nýsamþykkt lög sem lögfesta Icesave-samninginn sem gerður var í desember síðastliðnum.

Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir sambærileg lög sem byggðu á hinum svokallaða Icesave II samningi í janúar í fyrra í kjölfar þess að samningnum hafði verið mótmælt mjög harkalega. Andstæðingar þess að semja um Icesave afhentu forsetanum í vikunni um 38 þúsund undirskriftir fólks sem er þeim sammála.

Undirskriftunum hafði  verið safnað saman á vefsíðunni kjosum.is. Töluverðar deilur hafa geisað á undanförnum dögum um hversu áreiðanleg undirskriftasöfnunin er. Hópurinn sem stendur að baki henni telur kröfur Hollendinga og Breta í Icesave-deilunni ólögmætar og að málið eigi að leysast fyrir dómstólum.