Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók í dag og í gær, 6. og 7. febrúar, þátt í mörgum fundum og viðburðum í Nýju Delí, höfuðborg Indlands. Forsetinn var meðal ræðumanna á setningarathöfn Delí­ráð­stefnunnar um sjálfbæra þróun þar sem aðaláhersla var lögð á baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Framsögu á setningarathöfninni flutti forsætis­ráðherra Indlands dr. Manmohan Singh en fundinn sækja mörg hundruð áhrifamanna á sviði vísinda, tækni og viðskipta víða að úr veröldinni.

Í tilkynningu skrifstofu Forseta Íslands segir að í ávarpi sínu og umræðum sem fylgdu í kjölfarið lagði forseti Íslands áherslu á árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og nauðsyn þess að aðrar þjóðir grípi tafarlaust til raunhæfra aðgerða við umbreytingu orkukerfa heimsins. Nefndi hann ýmis dæmi frá Evrópu, Asíu og Mið-Austurlöndum um þann árangur sem ný tækni og breytt skipulag við þróun borga og bygginga gæti skilað.

Delíráðstefnan er þegar orðin mikilvægur alþjóðlegur vettvangur fyrir samráð og stefnumótun á þessu sviði en helsti hvatamaður fundarins og stjórnandi hans er dr. Rajendra K. Pachauri forseti TERI rannsóknarstofnunarinnar. Í vetur tók dr. Pachauri við Friðarverðlaunum Nóbels sem formaður Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC.

Í gær var forseti viðstaddur undirritun samkomulags milli Háskóla Íslands og TERI um víðtæka samvinnu í rannsóknum á sjálfbærri þróun og fleiri sviðum og um gagnkvæm skipti á nemendum og kennurum. Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor undirritaði samkomulagið fyrir hönd Háskóla Íslands en ásamt henni voru viðstaddar athöfnina þær Guðrún Pétursdóttir forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir stjórnarformaður stofnunarinnar en þær sækja Delíráðstefnuna ásamt rektor.

Forseti sat einnig fundi vísindamanna um bráðnun jökla af völdum hlýnunar jarðar, einkum um hina geigvænlegu þróun sem blasir við í Himalayafjöllum. Helgi Björnsson prófessor við Háskóla Íslands tók þátt í þessum fundum forseta og flutti erindi um rannsóknir íslenskra jökla­fræðinga. Forseti hefur í samræðum við indverska ráðamenn lagt áherslu á hvernig íslenskar jöklarannsóknir gætu gagnast við þróun víðtækra athugana á bráðnun Himalayajökla en þeir eru undirstaða vatnabúskapar og gróðurfars á meginlandi Indlands og hafa áhrif á fæðubúskap rúmlega 700 milljóna manna. Framlag íslenskra sérfræðinga getur því skipt Indverja miklu.

Í gærkvöldi sat forseti kvöldverðarboð sem Gunnar Pálsson sendi­herra Íslands á Indlandi og Glitnir buðu til í tilefni af því að bankinn hefur hafið starfsemi á Indlandi. Þar flutti forseti ávarp ásamt P. Chidambaram fjármálaráðherra Indlands og Lárusi Welding forstjóra Glitnis. Við það tækifæri undirritaði Glitnir samning við LNJ Bhilwara Group um sam­vinnu við nýtingu jarðhita á Indlandi.

Skömmu áður undirritaði Glitnir samkomulag við TERI og dr. Pachauri um stuðning Glitnis og Geysis Green Energy við kynningarátak sem dr. Pachauri hyggst efna til um allan heim til að vekja athygli á niðurstöðum rannsókna á loftslagsbreytingum og því hvernig aukin nýting hreinnar orku getur gagnast í baráttunni við hlýnun jarðar.

Einnig átti forseti fund með indverskum flugmálayfirvöldum um þau tækifæri sem gefast í flugsamgöngum milli Íslands og Indlands í sam­hengi við þróun flugvallarsvæðisins í Keflavík. Kjartan Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar kynnti möguleika á Keflavíkursvæðinu og tækifæri til margvíslegrar starfsemi.

Þá bauð Manmohan Singh forsætisráðherra Indlands forseta til viðræðna um margvísleg sameiginleg áhugamál en indverski forsætis­ráðherrann kom áður en hann tók við embætti ásamt Soniu Gandhi leiðtoga Kongressflokksins til Íslands í boði forseta. Forsætisráðherra Indlands ítrekaði stuðning Indverja við framboð Íslands til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og lýsti mikilli ánægju með vaxandi samvinnu þjóðanna.