Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga opnaði í gær nýja skrifstofu á besta stað í Varsjá í Póllandi. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var viðstaddur og opnaði skrifstofuna formlega en hann er staddur í Póllandi ásamt eiginkonu sinni, frú Elizu Reid, í opinberri heimsókn þeirra hjóna þar í landi.

Meniga hefur verið með skrifstofu í Póllandi síðan í september 2017 en starfsmannafjöldinn hefur tvöfaldast síðan þá. Eftirspurn eftir vörum Meniga hefur aukist mikið á undanförnum árum og nýju skrifstofunni ætlað að ráða við frekari fjölgun starfsmanna.

Ásamt forseta Íslands voru Viggó og Ásgeir Örn Ásgeirssynir, tveir af þremur stofnendum Meniga, viðstaddir opnunina. Pawel Rządziński, framkvæmdastjóri rekstrar, hefur leitt uppbyggingu starfsemi Meniga í Póllandi.

Á skrifstofu Meniga í Póllandi starfa nú um 50 manns og er hún því orðin næst stærsta skrifstofa fyrirtækisins á eftir þeirri íslensku. Skrifstofur Meniga eru í Kópavogi, Varsjá, Stokkhólmi, London, Barcelona, og Singapúr.

Að sögn Viggós og Ásgeirs hefur Meniga gengið gríðarlega vel að ráða afburðagott hugbúnaðar- og tæknifólk í Póllandi og er nýrri og stærri skrifstofu þar ætlað mæta þeim vexti sem framundan er.

Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfsmenn í dag rúmlega 160. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 70 fjármálastofnunum og er hann aðgengilegur meira en 65 milljón einstaklingum í 30 löndum.

Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims, þeirra á meðal Unicredit, Swedbank, BPCE, Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo. Landsmönnum stendur til boða að nýta sér lausnir Meniga gjaldfrjálst á vefnum meniga.is eða í Meniga appinu fyrir iPhone og Android síma.