Embætti forseta Íslands hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna fréttar sem birtist á stundin.is.

Í tilkynningunni segir að embættið telji nauðsynlegt að leiðrétta óskiljanlegar rangfærslur sem fram koma í frásögn vefritsins af sádí-arabískum leyniskjölum.

Í fréttinni segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi hitt sendiherra Sádi Arabíu í boði í Reykjavík 10. janúar 2013 þar sem einnig hafi verið nokkrir aðrir sendiherrar gagnvart Íslandi ásamt fjölda íslenskra embættismanna. Vefmiðillin lýsir samtali sem forsetinn er sagður hafa átt við sendiherra Sádi Arabíu í þessu boði.

Í tilkynningu forseta segir um þetta:

„Forseti Íslands tók ekki þátt í neinu slíku boði, hvorki á þessum degi né öðrum. Forseti Íslands hefur aðeins átt viðræður við núverandi sendiherra Sádi Arabíu þegar hann afhenti trúnaðarbréf sitt 3. mars 2015 og við fyrirrennara hans þegar sá sendiherra afhenti trúnaðarbréf sitt 10. mars 2009 og eru frásagnir af þeim fundum á heimasíðu embættisins. Þá tók forseti þann 26. júní 2008 á móti sendinefnd frá ráðgjafaþingi Sádi Arabíu sem hér var í boði Alþingis.“