Ólafur Ragnar Grímsson segir í viðtali við BBC að Bretar og Hollendingar fái endurgreiddar 4 milljarða evra sem greiddar voru þegar íslenska bankakerfið féll árið 2008. Greiðslan komi þrátt fyrir að þjóðin hafi fellt Icesave-samningana um síðustu helgi.

Ólafur Ragnar sagði að eignir Landsbankans myndu að öllum líkindum duga fyrir kröfunum, en Ólafur sagði slíkt hið sama á blaðamannafundi sem hann hélt síðasta sunnudag á Bessastöðum. Forsetinn sagði við BBC að á Íslandi snérist málið ekki um hvort Bretar og Hollendingar fái greitt eða ekki, heldur sé spurt hvort kröfurnar eigi að vera ríkistryggðar og hver túlkunin er á evrópsku regluverki.

Forsetinn sagði að helst megi lesa úr niðurstöðum kosninganna að áður en almenningur sé látinn greiða fyrir fallna banka, þá eiga eignir bankanna að ganga fyrst upp í kröfur. Ólafur sagði að fyrstu greiðslur úr þrotabúi Landsbankans yrðu í desember og að eignir þrotabúsins muni duga.