Á næsta ári fagnar Finnur Árnason tuttugu ára starfsafmæli hjá Högum. Þar áður var hann í níu ár hjá Sláturfélagi Suðurlands. Matvörumarkaðurinn hefur breyst mikið á þeim tíma sem Finnur hefur starfað á honum.

„Það varð mikil breyting þegar Bónus kom á markað 1989. Þá voru klukkubúðir ekki til og kaupmaðurinn á horninu allsráðandi, síðan kaupfélögin og Hagkaup. Form verslunarinnar hefur því breyst heilmikið en það hefur mataræði líka gert. Þegar Bónus opnar var mikið um kjötfars, slátur, bjúgu og saltkjöt og þess háttar. Þessi hefðbundni heimilismatur er auðvitað gjörbreyttur. Það er líka stór þáttur í okkar vinnu að fylgjast með. Ég vann með manni að nafni Guðjón Guðjónsson, sem hóf störf hjá SS fjórtán ára gamall og vann þar í 55 ár, meðal annars sem verslunarstjóri í Austurveri og Glæsibæ. Við vorum miklir mátar. Hann sagði mér af því þegar Vigdís Finnbogadóttir kom einu sinni til hans að versla. Þá hafði hún séð vöru á Ítalíu, Barilla pasta, sem væri gott að geta keypt á Íslandi. Sláturfélagið hóf þá innflutning og er enn umboðsaðili fyrir Barilla pasta.

Ef þessi saga er fyllilega rétt hjá mér er Vigdís að einhverju leyti ábyrg fyrir aukinni pastaneyslu og því að Barilla fór til SS og er þar enn. Þessi saga er kannski dæmigerð fyrir það hvernig óskir viðskiptavina breyta vöruframboði verslana.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .